Athafnamaðurinn Sigurjón Sighvatsson og samstarfsaðili hans, Björn Steinbekk Kristjánsson, sendu gagnvirku sjónvarpstöðina Big TV formlega í loftið í Svíþjóð í gær.

Björn Steinbekk sagði í samtali við Viðskiptablaðið að verkefnið væri að fullu fjármagnað næsta eina og hálfa árið og bætti við að fyrirtækið hafi þegar gert samning við norræna símafélagið TeliaSonera að virði þrjár milljónir evra, eða rúmlega 225 milljónir íslenskra króna, um að dreifa efni í gegnum dreifingarpípur TeliaSonera.

Markhópur stöðvarinnar er ungt fólk og segir Björn Steinbekk að Big TV sé fyrsta sjónvarpsstöðin í Evrópu sem sendir út efni samtímis í sjónvarpi, á Netinu og í útvarpi. Hann segir rekstrarkostnað Big TV mun minni en vanalegt er og reiknar með að hann nemi þremur milljónum evra á ári í stað 30 milljóna.

Þeir sem fylgjast reglulega með Big TV munu hvenær sem er geta stillt sig inn á og notið þess sem í boði er, hvort sem er í sjónvarps- eða útvarpstækjum sínum og tölvum. Þessi aðferð eða nýjung hefur í för með sér aukin efnistök í framleiðslu, fjölbreyttari og víðtækari dreifingu á Big TV, ásamt betri og skilvirkari dreifingu og nýtingu auglýsinga fyrir viðskiptavini Big TV.

Samkvæmt heimildum ætla þeir félagar ekki að láta staðar numið í Svíþjóð heldur hafa þeir uppi hugmyndir að stofnun slíkra stöðva í fleiri löndum. Í því sambandi hafa þeir verið að kynna sér markaðinn í Finnlandi, sem og önnur og stærri markaðssvæði, þar á meðal í Suður-Evrópu. Björn Steinbekk segir að Big TV geti hugsanlega náðst í Finnlandi eftir um fjóra mánuði.