Nú nýverið festi Bílabúð Benna kaup á bílaleigunni Sixt á Íslandi en Bílaleigan Berg sem hefur verið starfrækt í mörg ár er einnig í eigu Bílabúðar Benna og mun sameinast Sixt. Höfuðstöðvar Sixt á íslandi munu verða í fyrstu að Tangarhöfða 8-12, en einnig verður starfrækt útibú við Flugstöð Leifs Eríkssonar á mjög áberandi stað.

Sixt bílaleigan var stofnuð árið 1912 í Þýskalandi og er stærsta bílaleiga Þýskalands. Sixt starfar einnig í 85 löndum og er ein af virtustu bílaleigum heims. Sixt bílaleigan hefur verið valin besta bílaleigan í Þýskalandi, þrjú ár í röð segir í tilkynningu

Í tilkynningu kemur fram að á Íslandi er Sixt hins vegar fremur lítt þekkt, en Bílabúð Benna hefur nú sett sér markmið um að breyta því og bjóða upp á öfluga samkeppni við stóru bílaleigurnar eins og Avis og Hertz. Bílaleigan býður upp á nær allar gerðir bíla, allt frá minni sparneytnum bílum og upp í lúxus-bíla eins og til dæmis Porsche.

Mest áhersla er þó lögð á bíla sem henta við íslenskar aðstæður. Bílaflotinn samanstendur því að megninu til af sportjeppum og litlum fólksbílum. Stærsti markhópur bílaleigunnar eru erlendir ferðamenn og hafa nú þegar fjöldi bókana borist fyrir sumarið í gegnum alþjóðlegt net Sixt.

Í tilkynningu kemur fram að til að veita viðskiptavinum sínum sem hyggjast ferðast innanlands sem besta þjónustu hefur Bílabúð Benna gert samninga við fjölda þjónustuaðila á landsbyggðinni. Alls verða 30 þjónustustöðvar fyrir Sixt bílaleiguna um allt land. Einnig stendur fyrir dyrum kynningarherferð, þar Íslendingum, sem hafa hug á að sækja Evrópu heim, verða boðin sérstaklega góð kjör.