Bílaframleiðendur í Bandaríkjunum töpuðu í raun á verkefninu Cash for Clunkers, en verkefnið átti meðal annars að ýta undir bílasölu og þannig hjálpa bílaframleiðendum upp úr lægðinni sem fylgdi fjármálakreppunni. Frá þessu er sagt á vef Wall Street Journal.

Verkefnið, sem kynnt var árð 2009, snerist um að eigendum eldri og ósparneytinna bíla gafst kostur á að skila inn bílunum og fá þá allt að 4.500 Bandaríkjadala ávísun sem þeir gátu notað upp í nýjan og sparneytnari bíl. Með þessu átti að slá tvær flugur í einu höggi, að koma fleiri sparneytnum bílum á göturnar og auka sölu á nýjum bílum, og þannig styðja við bílaframleiðendur.

Ný rannsókn hagfræðinga við Texas A&M háskólann leiðir hins vegar í ljós að bílaframleiðendur hafi tapað talsverðum fjármunum á verkefninu þegar upp er staðið. Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að þeir sem fengu ávísun hafi ekki verið líklegri en aðrir til að kaupa sér nýjan bíl.

Hins vegar voru þeir sem fengu ávísun neyddir til að kaupa sparneytnari bíla, sem í mörgum tilvikum eru minni og ódýrari, og því hættu þeir margir hverjir við að kaupa stærri og dýrari ökutæki.

Talið er að bílaframleiðendur hafi orðið af 2,6-4 milljörðum dala vegna átaksins.