Á vefsíðu The Detroit News er greint frá því að Toshiyuki Tabata sem hefur varið 30 árum hjá Nissan Motor Co. við að gera bensínbíla lágværari, vinni nú með tónlistarfrömuðum við að gera rafmagnsbíla háværari og um leið öruggari.

Rafbílar og tvinnbílar sem að hluta ganga fyrir rafmagni þykja umhverfisvænir, en hafa um leið hvimleiðan galla. Í þeim heyrist nefnilega lítið sem ekkert sem skapar hættu fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur og þó einkum fyrir blinda. Vegna þess er búist við að umferðaryfirvöld í Bandaríkjunum og Japan setji þau skilyrði fyrir slíkum ökutækjum að þau gefi frá sér hljóð svo hægt sé að varast þau.

Nú eru bílaframleiðendur á borð við Nissan og Toyota að vinna lausnum á þessum vanda. Nissan, sem setur á markað svokallaðan Leaf rafbíl sinn á næsta ári, hefur nú fengið Toshiyuki Tabata til að snúa algjörlega við blaðinu í vinnu sinni hjá fyrirtækinu. Í stað 30 ára þrotlausrar vinnu við að reyna að gera bensínbíla lágværari vinnur hann nú ásamt tónlistarmönnum að búa til hávaða í rafbíla.