Í fyrsta sinn síðan fjármálakreppan skall á fyrir rúmum áratug dróst framleiðsla á bílum saman á síðasta ári. Financial Times greinir frá þessu og segir bílaiðnaðinn bæði vera fórnarlamb og geranda í niðursveiflunnar sem hagkerfi heimsins standi nú frammi fyrir.

Bílaframleiðsla leggi mun meira til heimsbúskaparins en framleiðslutölur gefi til kynna. Aðföng til bílaframleiðslu kalli á mikla og langa flutninga, auk þess sem bílaframleiðendur séu stórir kaupendur að hrávöru, textíl og rafbúnaði. Þá hefur framleiðslan áhrif á milljónir manna sem starfa við bílasölu og viðgerðaþjónustu.

Að mati Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) má rekja fjórðung samdráttarins í heimshagkerfinu milli áranna 2017 og 2018 til bílaiðnaðarins. Þar að auki sé þriðjungur af samdrætti í milliríkjaviðskiptum milli sömu ára til kominn vegna bílaframleiðslu þegar tekið er tillit til óbeinna áhrifa iðnaðarins.

Spá AGS um örlítinn vöxt í milliríkjaviðskiptum á næsta ári gengur út frá því að bílaiðnaðurinn taki að vaxa að nýju. Hins vegar bendi greinendur á að iðnaðurinn kunni að verða fyrir barðinu á aukinni hörku í viðskiptadeilu Bandaríkjanna og Evrópusambandsins. Til að mynda mun ríkisstjórn Trumps taka afstöðu til tillagna um að 25% tollur verði lagður á innflutning bíla þann 13. nóvember næstkomandi.

Víðast hvar í heiminum hefur bílasala dregist saman, m.a. í Kína og Indlandi, að Bandaríkjunum undanskildum. Viðvarandi óvissa um þróun milliríkjaviðskipta vegna átaka um tolla og tvísýnar horfur um hagvöxt í heiminum gætu hins vegar slegið á kaupgleði Bandaríkjamanna. Þá standi bílaframleiðendur tiltölulega veikt fyrir eftir gríðarlegar fjárfestingar í rannsóknir og þróun rafmagnsbíla.

Verði um 3% samdrátt að ræða í bílaframleiðslu í Bandaríkjunum á næsta ári muni 625 þúsund störf tapast í leiðinni.