Bandaríska blaðið The Detroid News greinir frá því í dag að yfir 305 milljarða dollara ríkisaðstoð sem búið var að samþykkja til bílaiðnaðarins hafi nær öll lent í vösum bankanna. Vart meira en 8% af aðstoðinni, eða 24,9 milljarðar dollara hafi skilað sér alla leið til bílaiðnaðarins í Detroit og bannað er að bruðla með þá aura.

Blaðið segir að fjármálaráðuneyti Bandaríkjanna hafi verið búið að samþykkja þann 2. febrúar að greiða út 305 milljarða dollara til að bjarga bílaiðnaðinum (Genaral Motors Corp og Chrysler). Í raun hafi aðstoðin þó farið til að bjarga bönkum vegna skulda bílaiðnaðarins. Um 85% hafi farið til Citigroup og 24 annarra fjármálastofnana eða 259,2 milljarðar dollara. Til samanburðar hefur General Motors Corp. „aðeins” fengið 19,3 milljarða dollara og Chrysler Holding LLC hefur fengið 5,5 milljarða af ríkisaðstoðinni.

Peningarnir sem runnið hafa til bílaframleiðendanna eru háðir mjög ströngum skilyrðum. Eru þeir háðir því að engir bónusar verði greiddir til 25 tekjuhæstu stjórnendanna. Þá er skilyrðislaus krafa um að forstjóraþotur félaganna verði seldar eða leigðar. Þá er hverskonar bruðl bannað, eins og styrkveitingar, ferðalög, endurnýjun á skrifstofum og partýstand.