Geysisnarpur viðsnúningur hefur orðið í innflutningi fólksbifreiða á síðustu mánuðum og eru horfur á að landið geti orðið nettóútflytjandi á fólksbílum næstu mánuði.

Þetta kemur fram í Morgunkorni Glitnis.

Þar kemur fram að lágur meðalaldur fólksbifreiða á Íslandi bendir auk heldur til þess að landsmenn komist ágætlega af án mikils bílainnflutnings næstu misserin.

Á vef Umferðarstofu má nálgast upplýsingar um nýskráningar bifreiða og ýmsar staðtölur um bílaflota landsmanna, og kemur þar fram að nýskráningar nýrra fólksbifreiða voru 188 í október síðastliðnum. Er það 85% samdráttur í nýskráningum miðað við sama tíma í fyrra.

Á þriðja ársfjórðungi voru nýskráðir einkabílar 1.591 talsins og jafngildir það 60% samdrætti frá sama tímabili 2007. Það sem af er ári hafa verið fluttar inn 8.913 fólksbifreiðar en á sama tíma í fyrra voru 13.726 fólksbílar fluttir inn.

Bílaútflytjandinn Ísland?

Þá fjallar Greining Glitnis um að nokkuð hefur verið um útflutning á notuðum fólksbifreiðum undanfarnar vikur og segir greiningardeildin að búast megi við því að slíkur útflutningur færist í aukana ef tillögur um endurgreiðslu opinberra gjalda af útfluttum ökutækjum nær fram að ganga.

Bílgreinasambandið áætlar að notaðir bílar til sölu á landinu í október hafi verið á bilinu 8 - 10.000.

„Þrátt fyrir að tiltölulega lítill hluti þessara bíla verði seldur úr landi gæti útflutningurinn þannig hlaupið á hundruðum bíla í mánuðum hverjum næsta kastið,“ segir í Morgunkorni Glitnis.

„Á hinn bóginn er líklegt að innflutningur bifreiða á næstu mánuðum verði síst meiri en í október, enda gengi krónu afar lágt, lánsfé til bifreiðakaupa torfengið og heimilin halda að sér höndum með öll stærri útgjöld vegna hríðversnandi horfa í efnahagslífinu. Því eru talsverðar líkur á að fleiri fólksbílar verði fluttir út næstu mánuðum en koma inn í landið.“