Bílaleiga Akureyrar hefur samið við Bílaumboðið Öskju um kaup á liðlega 30 nýjum Kia bifreiðum sem afhentar verða á næstu vikum. Eru f orsvarsmenn Bílaleigu Akureyrar bjartsýnir á ferðasumarið 2010 og segja að eftirspurn eftir bílaleigubílum sé nú aftur að færast í eðlilegt horf eftir talsverðan samdrátt í bókunum í apríl og maí vegna eldgossins í Eyjafjallajökli.

Eins og fram hefur komið í sölutölum Bílgreinasambandsins hefur sala á nýjum bílum tekið að glæðast undanfarið. Má það að verulegum hluta rekja til þess að bílaleigurnar hafa verið að endurnýja flota sína fyrir sumarið.

Í fréttatilkynningu kemur fram að flestir bílanna sem Bílaleiga Akureyrar kaupir að þessu sinni séu fólksbílar af gerðinni  Kia cee‘d en einnig er um að ræða Kia jeppa og sendibíla. Segir Bergþór Karlsson framkvæmdastjóri Bílaleigu Akureyrar í Reykjavík að leigan hafi mjög góða reynslu af bílum frá Kia sem boðið hafi verið upp á þá undanfarin ár. Með kaupunum nú sé verið að fjölga þessari tegund í flotanum verulega.

Jón Trausti Ólafsson framkvæmdastjóri Öskju segir að Kia er sá framleiðandi sem er í hvað mestum vexti í bílaheiminum í dag. Vinsældir Kia bílanna á Íslandi megi meðal annars rekja til þess að þeir hafi reynst mjög vel en auk þess bjóði Askja nú alla Kia bíla með 7 ára ábyrgð. Hann segir Kia cee´d með sparneytnari og umhverfismildari bílum á markaðinum í dag og að þeir hafi fengið fimm stjörnur fyrir öryggi og þá spilli gott verð ekki fyrir.