Höldur-Bílaleiga Akureyrar gekk frá kaupum á ellefu rafbílum á dögunum, en bílarnir eru af tegundunum Kia Soul EV, Nissan Leaf og Volkswagen e-Golf. Bílaleiga Akureyrar er, samkvæmt því er segir í tilkynningu, fyrsta bílaleigan á Íslandi til að öðlast vottun samkvæmt alþjóðlega umhverfisstjórnunarstaðlinum ISO 1400, en Steingrímur Birgisson, forstjóri fyrirtækisins, segir að markvisst sé verið að leita leiða til að minnka útblástur bílaflotans.

Í tilkynningu er haft eftir Steingrími að fyrirtækið verði með um 3.400 bíla í flotanum í sumar og muni kaupa um 1.200 nýja bíla á þessu ári. Hann segir undanfarin ár hafa verið annasöm og að töluverður vöxtur hafi verið í greininni samfara auknum fjölda ferðamanna, en árstíðasveiflurnar séu samt enn mjög miklar.

Hann segir árið 2015 líta mjög vel út en auðvitað geti verkföll sett stórt strik í reikninginn. Þau gætu haft mjög slæm áhrif á rekstur bílaleiga og raunar mjög slæmar afleiðingar fyrir íslenskt efnahagslíf. Til marks um umfang bílaleigugeirans segir hann að yfir háannatíma láti nærri að ferðamenn á bílaleigubílum kaupi eldsneyti fyrir tæpar 60 milljónir á dag eða 1,8 milljarð á mánuði.