Leiga á bílaleigubíl í eina viku um miðjan júlí kostar nærri þrefalt meira á Íslandi en í Danmörku. Þetta sýnir óformleg verðkönnun Fréttablaðsins .

Lægsta verðið fyrir vikuleigu á ódýrasta nýja eða nýlega bílnum var hér um 76 þúsund krónur. Sambærilegur bíll fæst fyrir 28 þúsund krónur í Danmörku og um 33 þúsund í Svíþjóð. Aðeins í Noregi var verðið eitthvað í líkingu við það sem gerist hér. Þar kostaði sambærilegur bíll rúmar 63 þúsund krónur.

„Við erum dýrir á sumrin, það er bara þannig, er það ekki bara gott? Þá er nóg að gera,“ segir Hjálmar Pétursson, forstjóri ALP, í samtali við Fréttablaðið. ALP rekur bílaleigurnar Budget og Avis. Hjálmar segir mikla samkeppni á milli bílaleiga á Íslandi, en verðið ráðist af framboði og eftirspurn.

Hann segir ýmsar ástæður fyrir því að bílaleigubílarnir séu dýrari hér, til að mynda aðflutningsgjöld af bílum, flutningskostnað og skatta.