Alþjóðlega bílaleigufyrirtækið Enterprise hefur útnefnt Bílaleigu Kynnisferða umboðsaðila sinn á Íslandi og bætir þar með mikilvægum og vinsælum evrópskum áfangastað við ört vaxandi starfsemi sína. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Í kjölfar samningsins mun merki Enterprise verða sýnilegt víða um land á næstu mánuðum enda er það stefna Enterprise að skapa alþjóðlegt vörumerki sem stendur fyrir framúrskarandi þjónustu við fólk í vinnu- og frístundaferðum.

Kynnisferðir - Reykjavik Excursions er eitt af stærstu ferðaþjónustufyrirtækjum landsins og hóf rekstur eigin bílaleigu árið 2013. Fyrirtækið er eitt elsta og rótgrónasta fólksflutningafyrirtæki landsins og hefur frá upphafi verið í fararbroddi í skipulögðum dagsferðum með erlenda ferðamenn um Ísland.

Peter Smith aðstoðarforstjóri sérleyfasviðs Enterprise segir í tilkynningunni Ísland vinsælan áfangastað og það sé kappsmál þeirra að viðskiptavinir Enterprise um heim allan geti leigt bíla af fyrirtækinu hvert sem þeir ferðast. Hann segist hlakka til samstarfsins við Kynnisferðir - Reykjavik Excursions sem er þrautreynt fyrirtæki með sömu hugsjón og þeir, og að lykillinn að velgengi sé góð þjónusta við viðskiptavininn.

Kristjan Daníelsson, framkvæmdastjóri Kynnisferða - Reykjavik Excursions og nú Enterprise Iceland, tekur í svipaðan streng og segir samstarfið við Enterprise vera kjörið tækifæri til að byggja upp stórt og öflugt fyrirtæki en bílaleiga verður sífellt mikilvægari þáttur ferðaþjónustunnar. Ísland er heillandi áfangastaður þeirra sem vilja sjá og upplifa eitthvað nýtt á ferðalögum sínum. Leiga á bíl eykur frelsi ferðafólks og auðvelda því að upplifa og njóta íslenskrar náttúru.

Enterprise starfar nú í Austurríki, Belgíu, Bosníu-Hersegóvínu, Búlgaríu, Króatíu, Kýpur, Tékklandi, Frakklandi, Þýskalandi, Grikklandi, Ungverjalandi, Írlandi, Ítalíu, Makedóníu, Hollandi, Portúgal, Slóvakíu, Spáni og Bretlandi. Á næstu mánuðum mun fyrirtækið opna útibúi í fleiri löndum Evrópu.