Undirritaður hefur verið samningur milli Toyota í Kópavogi og Bílaleigunnar Hertz um kaup á 365 nýjum Toyota bifreiðum. Þar af eru 283 Yaris, Verso, Auris og Avensis fólksbílar, 50 Rav4 jepplingar og 32 Land Cruiser jeppar. Bílarnir verða afhentir í vor, og þá verður Hertz sú bílaleiga á landinu sem flesta nýja bíla hefur í flota sínum segi í tilkynningu.

„Við lítum björtum augum á rekstur bílaleigunnar á næstu misserum og teljum mikilvægt fyrir ferðaþjónustuna í landinu að til staðar sé öflugur floti bíla sem góð reynsla er af við íslenskar aðstæður. Hertz gerir kröfur um að bílarnir sem leigðir eru út séu ekki eldri en tveggja ára og þannig geta viðskiptavinir okkar verið vissir um að fá nýja og örugga bíla” segir Sigfús B. Sigfússon, framkvæmdastjóri Hertz í tilkynningu. „Um 85% viðskiptanna koma erlendis frá og starfsemin skilar því miklum gjaldeyristekjum” segir Sigfús ennfremur.

„Okkur þykir vænt um það traust sem Toyota er sýnt og þessi samningur er okkur mikilvægur enda um mikinn fjölda bíla að ræða. Heildarsala á öllum fólksbílum og jeppum á innanlandsmarkaði  á síðasta ári var um 2280 bílar þannig að þessi samningur jafngildir um það bil 16% af heildarsölu á innanlandsmarkaði í fyrra“ segir Haraldur Þ. Stefánsson, framkvæmdastjóri Toyota í Kópavogi í tilkynningu.

Samstarf Toyota á Íslandi og Hertz hefur verið mjög náið um langt árabil og er það von stjórnenda beggja fyrirtækja að svo muni verða áfram um ókomin ár.