Egill Jóhannsson, forstjóri Brimborgar, segir að bílaleigubílum hafi fjölgað um fimmtung frá síðasta og þeir hafi aldrei verið fleiri en nú. Greint er frá þessu í Morgunblaðinu .

Þar segir að bílaleigubílar séu nú rúmlega 17.500 talsins samkvæmt tölum frá Samgöngustofu, en Egill segir að vitað sé að villur séu í skráningunni. Þegar bílaleigubílar séu seldir á haustin gleymi sumir að afskrá þá sem bílaleigubíla, og áætlar hann að þeir séu í dag ekki færri en 15 þúsund.

Bílaleigurnar kaupa langmest af nýjum bílum og nam sala til þeirra ríflega 40% af sölu nýrra bíla allt árið í fyrra. Egill kvaðst telja að þetta hlutfall verði heldur lægra á þessu ári, en þó nálægt því.

Þá er einnig greint frá því í Morgunblaðinu að skráðum hópbifreiðum hafi fjölgað um rúnlega 500 frá árinu 2010 og nú séu 1.879 hópbifreiðar í umferð. Samhliða því hafi meðalaldur hópbifreiða lækkað úr 14 árum 2010 í 12,5 ár nú, en meðalaldur í umferð er 9,75 ár.