*

mánudagur, 27. september 2021
Innlent 15. janúar 2017 17:32

Bílaleigur á lista með útgerðum

Sigurður Viðarsson hefur starfað sem forstjóri TM frá árinu 2007 en verið viðloðinn tryggingabransanum frá því að hann var tvítugur.

Ásdís Auðunsdóttir
Haraldur Guðjónsson

Sigurður Viðarsson hefur starfað sem forstjóri TM frá árinu 2007 en verið viðloðinn tryggingabransanum frá því að hann var tvítugur. Að hans sögn eru tryggingaviðskipti honum í blóð borin og starfsemin, sem samtvinnast af tryggingum og fjárfestingum, finnist honum gríðarlega áhugaverð. 

Hvernig eruð þið helst að haga fjárfestingunum ykkar?

„Þetta er náttúrlega stórt safn og mikilvægt að hafa góða dreifingu á því. Við reynum að vera ekki með of stórar einstakar stöður og fjárfestum í raun í öllum skalanum: Skuldabréfum, hlutabréfum, fasteignafjárfestingum og fleiru.“

Aukinn fjöldi ferðamanna hefur haft mikil áhrif

Hvernig hefur aukinn ferðamannastraumur komið við starfsemi tryggingafélaganna?

„Hann hefur haft töluverð áhrif enda veldur þróunin auknum umsvifum í hagkerfinu sem hækkar um leið iðgjöldin okkar. Við sjáum það til dæmis að bílaleigurnar eru komnar í hóp stærstu viðskiptavina félagsins þar sem eingöngu voru útgerðarfélög áður. Þetta hefur auk þess áhrif á svo margt, ekki bara bílaleigurnar, rútufyrirtækin og öll þessi ferðaþjónustufyrirtæki heldur líka á framkvæmdir við hótel og þar af leiðandi verktaka. Allt hefur þetta áhrif á topplínuna, iðgjöldin aukast og þegar hraðinn er svona mikill þá er meiri hætta á mistökum sem eykur þá tjónin í ábyrgðartryggingunum hjá okkur. Það er mjög jákvætt að sjá hvað uppsveiflan hefur getið af sér stór og öflug ferðaþjónustufyrirtæki sem menn eru að reka eins og hvert annað meðalstórt og stórt fyrirtæki á Íslandi. Það er ekki lengur bara Icelandair sem er risi á markaðnum heldur hafa sprottið upp mörg meðalstór ferðaþjónustufyrirtæki sem eru rekin mjög myndarlega. Það skiptir líka máli fyrir okkur enda verða okkar störf einfaldari þegar menn eru farnir að ráða inn öryggisstjóra, forvarnafulltrúa o.s.frv. Það hjálpar okkur auðvitað þegar fyrirtækin efla innviði sína með það fyrir augum að vinna að forvörnum.“

Það er óhætt að fullyrða að það er frekar hörð samkeppni á íslenska tryggingamarkaðnum. Hvernig blasir þetta samkeppnisumhverfi við þér?

„Það er náttúrlega ekkert leyndarmál að það er langmest keppt í verðum og það er búið að rýmka ennþá meira fyrir samkeppninni þegar fólki var gefinn kostur á því að segja upp samningum og hætta frá og með næstu mánaðamótum. Samkeppnin er mikil en hún hefur alltaf verið það. Þannig að það er svo sem ekkert nýtt. Það eru fjögur skaðatryggingafélög og það eru að verða jafn mörg líftryggingarfélög á innanlandsmarkaði. Við höfum verið í erlendri samkeppni í líftryggingunum en nánast engri erlendri samkeppni í skaðatryggingunum. Við leggjum mikla áherslu á þjónustu en það er mjög erfitt að breyta þeirri ánægju viðskiptavina í peninga, þegar samkeppnin snýst aðallega um verð.“

Viðtalið má lesa í heild sinni í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast eintak af blaðinu á pdf-formi með því að smella á hlekkinn Tölublöð. 

Stikkorð: Sigurður Viðarsson