*

miðvikudagur, 12. maí 2021
Innlent 14. apríl 2020 11:23

Bílaleigur reyna að hætta við bílakaup

Ekki þörf á nýjum bílum vegna samdráttar í komu ferðamanna næsta sumar. Bílaleiga Akureyrar náð að hætta við um 20% kaupa.

Ritstjórn
Steingrímur Birgisson, forstjóri Bílaleigu Akureyrar.
Haraldur Guðjónsson

Útlit er fyrir að straumur ferðamanna hingað til lands muni dragast verulega saman vegna kórónuveirufaraldursins og sökum þess reyna bílaleigur nú að hætta við kaup á nýjum bílum. Morgunblaðið greinir frá þessu.

Bílaleigu Akureyrar hefur tekist að hætta við fyrirhuguð kaup á um 15-20% þeirra bíla sem fyrirtækið áætlaði að festa kaup á, að sögn Steingríms Birgissonar, forstjóra Bílaleigu Akureyrar. Þá standa yfir viðræður við bílaumboðin um að hætta við enn fleiri kaup.

„Við erum að reyna að fresta eða losna undan kaupum eins og hægt er, en það er oft ekki hægt. Í mörgum tilfellum eru bílarnir þegar komnir til landsins,“ segir hann í samtali við Morgunblaðið. Steingrímur segir að í þeim tilfellum sem bílarnir séu þegar komi til landsins verði að standa við þau kaup.

Þá segir hann að til hafi staðið að kaupa svipaðan fjölda bíla og bílaleigan hefur gert undanfarin ár, en gera megi ráð fyrir að meginþorri nýju bílanna sem koma inn fyrir sumarið verði látnir standa til næsta sumars.