„Það er bílaleigustemning í flestum umboðanna,“ segir Erna Gísladóttir, forstjóri BL. Hún bendir á að almenningur bíði á hliðarlínunni eftir því að úrlausn finnist á skuldamálum þess. Marga langi í nýjan bíl en bíði þar til og þá hvort ráðstöfunartekjur heimilanna aukist.

„Stór hluti af heimilum landsins er með 5 til 7 ára gamla bíla. Það er ekkert óeðlilegt við það að fólk sem á sjö ára gamlan bíl sé farið að huga að því að skipta,“ segir hún og bendir á að öðru máli gegni um bíla í dag og fyrir sárafáum árum. Eyðsla stórra bíla hafi breyst og sé nú svo komið að það geti borgað sig að skipta um og fá sér sparneytnari sem þarfnist lítils viðhalds en að láta gera við gamla bílinn.

Erna og fleiri sem Viðskiptablaðið ræddi við benda á að bílafloti landsmanna hafi elst hratt. Erna segir að nú sé svo komið að bílafloti Íslendinga sé að meðaltali orðinn nokkuð eldri en bílar á meginlandi Evrópu.

Í Bílum, sérblaði um bíla sem fylgdi Viðskiptablaðinu í vikunni er m.a. rætt við þau Úlfar Hinriksson hjá Suzuki-umboðinu, og Úlfar Steindórsson, forstjóra Toyota á Íslandi, um ganginn í bílabransanum. Þar kemur m.a. fram að fólk 55 ára og eldri er í meirihluta þeirra sem kaupir nýja bíla í dag. Algengustu bílarnir sem fólk kaupir kosta minna en þrjár milljónir króna. Ekki er mikil hreyfing á bílum sem kosta á milli 3-6 milljónir króna.

Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér .