Sala McDonalds í Bandaríkjunum, aðlöguð fyrir fjölda matsölustaða, féll um 5% í maí samanborið við sama mánuð í fyrra. Það eru batamerki frá aprílmánuði en sala fyrirtækisins í apríl féll um 17% frá fyrra ári.

Skyndibitarisinn sagði fyrr í dag að bílalúgur og heimsendingarþjónustur hafi hjálpað fyrirtækinu að ná sölu aftur upp í heimsfaraldrinum. Tæplega 95% af matsölustöðum McDonalds í Bandaríkjunum hafa bílalúgur.

Veitingastaðir með bílalúgur hafa almennt komið betur út úr faraldrinum en aðrir matsölustaðir. Skoðanakannanir gefa til kynna að neytendur telja bílalúgur vera einn öruggasti verslunarmáti á matsölustöðum í núverandi ástandi, samkvæmt frétt WSJ .

Pantanir á morgunmat hafa dregist verulega saman og vega þungt í samdrættinum á sölu, segir í tilkynningu McDonalds. Stjórn McDonalds ákvað að fækka á réttum á matseðli, meðal annars í morgunverðarhlutanum, til þess að auka afköst. Meðalbiðtími í bílalúgum lækkaði um 25 sekúndur í Bandaríkjunum, að hluta til vegna takmarkaðri matseðils, að sögn stjórnarmanna.

Alþjóðleg sala McDonalds var um 41% lægri í maí miðað við sama mánuð í fyrra. Lokanir í Bretlandi og Frakklandi spila stóran þátt í þeim tölum.