Á síðustu vikum hefur Bílanaust hf. fjárfest í þremur fyrirtækjum í Bretlandi. Öll þessi fyrirtæki eru í sölu og dreifingu á iðnaðarvörum. Þessi félög sem hafa verið keypt eru sameinuð undir einni yfirstjórn með höfuðstöðvar í Northampton sem er borg 90 km norður af London. Framkvæmdastjóri starfseminar verður Neil Munton en hann hefur unnið náið með stjórnendum Bílanausts að stefnumótun í þessum uppkaupum. Neil Munton var um árabil einn af sölustjórum Cromwell Tools sem er stærsti iðnaðarvörusali Bretlands.

Bílanaust hefur tekið við rekstri 2ja félaga nú þegar en það stærsta verður afhent nk. föstudag 14 október. Rekstur félaganna verður undir nafninu AT Toolcentre Ltd. Umfang þessa rekstrar er um 1,2 milljarðar
á ári og hagnaður félaganna hefur verið um 100 milljónir á ári. Starfsmenn í Bretlandi eru um 75 talsins. Bílanaust naut aðstoðar Íslandsbanka við fjármögnun kaupanna.

Bílanaust samstæðan eftir þessi kaup er að segja má byggð upp á 3 megin stoðum þ.e.a.s. sala og dreifing á varahlutum, sala og dreifing á hjólbörðum og svo iðnaðarvörusala í Bretlandi. Um það bil 25% af tekjum
og hagnaði samstæðunnar kemur frá starfseminni í Bretlandi eftir þessi kaup. Áætlun félagsins fyrir árið 2006 er í vinnslu en reiknað er með að velta félagsins verði um 4,3 milljarðar króna og hagnaður tæpar 400 milljónir.

Það má reikna með að frekari stækkun á starfseminni í Bretlandi verði á næsta ári og hefur markaðssvæðið verið skilgreint þannig að Birmingham er nyrsti hluti svæðisins og London er syðsti hluti þess svæðis sem
ákveðið hefur verið að horfa til. Iðnaðarvörur þær sem Bílanaust og tengd félög starfa með eru skilgreindar sem: verkfæri, festingavörur, öryggisvörur, hreinlætisvörur og efnavörur.

Framkvæmdastjóri Bílanausts er Hermann Guðmundsson.