Bílanaust keypti allan rekstur Gúmmívinnustofunnar hf. í síðustu viku og tók við honum 1. júní. Seljandi er Viðar Halldórsson sem rekið hefur félagið síðustu 20 árin, kaupverð er ekki gefið upp. Að sögn Hermanns Guðmundssonar, framkvæmdastjóra Bílanausts, bar kaupin að með skjótum hætti.

"Þegar við keyptum Ísdekk um áramót þá var Gúmmívinnustofan stærsti viðskiptavinurinn og þegar félagið bauðst okkur til kaups þá slógum við til. Við horfum á sölu hjólbarða með sama hætti og varahlutasöluna okkar. Með þessu þá erum við stærstir í dreifingu hjólbarða (Ísdekk) og nú stærstir í smásölunni líka," sagði Hermann við Viðskiptablaðið. Bílanaust samstæðan verður með um 2,8 milljarða í ársveltu eftir þessi kaup.

Eigendabreytingar urðu á Bílanaust fyrir skömmu þegar Hafsilfur, sem er fjárfestingafélag Benedikts Sveinssonar, keypti upp hluti Sjóvá og Burðaráss. Í dag eru 2 hluthafar í Bílanausti, Hafsilfur og Strax-fast, hvor með um 50% í félaginu.