*

mánudagur, 2. ágúst 2021
Innlent 7. febrúar 2006 10:20

Bílanaust kaupir Olíufélagið

velta sameinaðs félags um 26 milljarðar króna

Ritstjórn

Bílanaust, núverandi hluthafar og stjórnendur félagsins ásamt öðrum fjárfestum, hafa keypt allt hlutafé í Olíufélaginu, segir í fréttatilkynningu. Kaupverðið er ekki gefið upp.

Talið er að virði hlutafjárins sér í kringum 15 milljarðar króna. Ekki er þá reiknað með yfirtöku skulda félagsins. Íslandsbanki hafði umsjón með söluferlinu, en fyrrverandi eigandi Olíufélagsins er eignarhaldsfélagið Ker.

Olíufélagið og Bílanaust verða í eigu nýs eignarhaldsfélags og mun velta þess félags á þessu ári nema um 26 milljörðum króna. Hermann Guðmundsson verður framkvæmdastjóri eignarhaldsfélagsins, ásamt því að gegna starfi framkvæmdastjóra Bílanausts, segir í tilkynningunni.

?Við gerum ekki ráð fyrir miklum áherslubreytingum í rekstrinum enda teljum við að Olíufélagið sé vel rekið í dag. Það eru töluverðir möguleikar í samstarfi félaganna, einkum í þróun á þjónustu við bifreiðaeigendur og stórnotendur," segir Hermann Guðmundsson. Hann segir einnig félagið spennandi og með traustan rekstur.

Það er gert ráð fyrir því að fljótlega verði ráðinn nýr forstjóri Olíufélagsins en Hjörleifur Jakobsson, núverandi forstjóri Olíufélagsins, mun fyrst um sinn starfa með nýjum eigendum. Síðar mun hann snúa sér að verkefnum í samstarfi við fyrrverandi eigendur Olíufélagsins.

Ólafur Ólafsson, stjórnarformaður Olíufélagsins er ánægður með söluna og það hversu söluferlið gekk hratt fyrir sig.