Þeir sem hafa nýlega kíkt á hinn sígilda bílasölurúnt hafa eflaust einhverjir tekið eftir því að úrval notaðra bíla hefur jafnan verið meira á bílasölum landsins en þessa stundina. Af samtali blaðamanns við hina ýmsu aðila sem þekkja vel til bílamarkaðar að dæma hafa margir samverkandi þættir orðið til þess að dregið hefur úr framboði notaðra bíla. En til að leita nánari skýringa hafði Viðskiptablaðið samband við Jón Trausta Ólafsson, framkvæmdastjóra Bílaumboðsins Öskju.

Jón Trausti segir Covid-19 faraldurinn hafa valdið óvenjulegri stöðu á bílamarkaði, bæði hér á landi sem og erlendis, og m.a. orðið til þess að framboð notaðra bíla sé minna en í eðlilegu árferði. „Það eru nokkrar ástæður fyrir því að framboð notaðra bíla á Íslandi er minna en við höfum áður þurft að venjast," segir hann. „Í fyrsta lagi hefur sala á notuðum bílum á Íslandi verið mjög góð síðastliðin tvö ár. Á sama tíma hefur innflutningur á nýjum bílum dregist saman, sem leiðir til aukinnar eftirspurnar og sölu á notuðum bílum. Í öðru lagi fór ferðaþjónustan aftur að einhverju leyti í gang á Íslandi í sumar, sem varð til þess að bílaleigur tóku sína notuðu bíla af sölu og komu þeim aftur í notkun. Í þriðja lagi fer svo Íslendingum sífellt fjölgandi, auk þess sem margir erlendir starfsmenn í ferðaþjónustu eru komnir aftur til vinnu og þurfa því bíl til afnota."

Jón Trausti segir framleiðslutafir á nýjum bílum vegna skorts á hráefnum, til að mynda tölvukubbum og hálfleiðurum, einnig hafa haft mikil áhrif á bílamarkaðinn. „Það hefur hægst á bílaframleiðslu og það veldur aukinni eftirspurn eftir notuðum bílum, þar sem framboð nýrra bíla hefur dregist saman."

Framboð aukist með haustinu

Jón Trausti telur að framboð notaðra bíla muni aukast með haustinu, þegar hægt hefur á komum ferðamanna til landsins. „Á haustmánuðum má reikna með að þó nokkur fjöldi notaðra bílaleigubíla komi á sölu, en þó ekki í því magni sem verið hefur undanfarin ár. Bílaleigur eiga í dag færri bíla en fyrir faraldurinn og þær vilja að sjálfsögðu ekki selja alla bílana sína. Þær munu þó eitthvað létta á bílum og byrja að huga að endurnýjun fyrir næsta ár, þar sem endurnýjunarþörf hefur safnast upp innan íslenska bílaleiguflotans."

Jón Trausti reiknar með að skortur á hráefnum muni halda áfram að hafa áhrif á bílaframleiðslu í það minnsta fram á næsta vor. „Bílaframleiðendur hafa þó fundið sér ýmsar leiðir fram hjá þessu vandamáli, til dæmis með því að einfalda framleiðsluna og hafa færri valkosti í boði en áður af hverri týpu fyrir sig." Framleiðendur hafi því alls ekki lagt árar í bát, heldur lagað sig að breyttum veruleika. Til framtíðar verði skortur á búnaði sem veldur töfum, svo sem á tölvukubbum og hálfleiðurum, þó ekki leystur öðruvísi en með því að fjölga framleiðendum sem framleiða slíkan búnað.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .