Að sögn Emils Grímssonar, stjórnarformanns Arctic Trucks, er félagið að vinna að athyglisverðu verkefni á suðurskautinu sem gæti opnað á mögulega sölu á breyttum bílum þangað.

Þegar rætt var við Emil var hann á leið til Höfðaborgar í S-Afríku en þangað koma einnig starfsmenn Arctic Trucks sem undanfarið hafa unnið í Brasilíu. Hópurinn er að undirbúa leiðangur til suðurskautsins. Arctic Trucks hefur nú sent fjóra bíla til Höfðaborgar og tveir þeirra halda þann 1. desember til rússneskrar herstöðvar á suðurskautinu. Þar hafa þeir 18 daga til að finna leið upp á hásléttuna sem er í 3000 metra hæð þar sem verður meðal annars háð gönguskíðakeppni á suðurpólinn.

Að sögn Emils fá þeir stórann hluta útlags kostnaðar borgaðann en þetta er mikið verkefni og munu BBC og Discovery gera myndir um þetta. ,,Við vonumst til þess, að ef bílarnir sanna sig á þessum slóðum, með það eldsneyti og þann tímaramma sem við er að eiga, séum við að skrifa nýtt blað fyrir vísindasamfélagið og aðra sem starfa þarna. Bílarnir eyða ekki nema broti af þeirri olíu sem snjóbílarnir eyða og bila miklu minna og fara miklu hraðar og þægilegar yfir í léttu færi en snjóbíll.” Emil sagðist koma til með að eiga viðræður við félög sem stundi samgöngur á suðurskautinu um sölu á bílum þangað.