Bílar hér á landi eru að meðaltali tólf ára gamlir og hefur lítil endurnýjun orðið á bílaflota landsins síðan fyrir hrun. Ætla má að einstaklingar eigi bíla sína lengur og kaupi heldur notaða bíla en nýja þegar kemur að endurnýjun, samkvæmt upplýsingum frá Bílgreinasambandinu.

Í Bandaríkjunum á fólk sama bílinn að meðaltali í sex ár eins og greint var frá fyrr í dag hér á vb.is. Sambærilegar upplýsingar liggja ekki fyrir um hve lengi hver Íslendingur keyrir sama bílinn.

Einkabílaeign á Íslandi hefur alla jafna verið mun meiri en í nágrannalöndnum líkt og kemur fram í tölum Alþjóðabankans frá árinu 2008. Hér á landi voru þá 661 bílar á þúsund íbúa en sambærileg tala í Noregi var 461 og í Danmörku 337. Í lok árs 2010 hafði fjöldi einkabíla á hverja þúsund íbúa hér á landi minnkað lítillega og voru bílarnir þá 643 samkvæmt upplýsingum á vefsvæði Hagstofu.

bílar
bílar
© Gunnhildur Lind Photography (Gunnhildur Lind Photography)