Fulltrúar stærsta bílaframleiðslufyrirtæki Rússlands, AvtoVAZ, undirrituðu samning við Renault SA í París á föstudag um endurskipulagningu rússneska fyrirtækisins. Það er talið sýna mikilvægi þessa samninga fyrir rússneskan bílaiðnað að bæði Vladimir Putin  forsætisráðherra Rússlands og Dominique de Villepin forsætisráðherra Frakklands voru viðstaddir undirritunina. Gert er ráð fyrir að samningurinn taki gildi í mars 2010.

Samkvæmt samningnum mun rússneska ríkið leggja AvtoVAZ til 1,65 milljarða dollara til að styrkja lausafjárstöðu fyrirtækisins sem komin var uppurin. Þá mun Samara hérað, þar sem AvtoVAZ er með sínar höfuðstöðvar, aðstoða með launagreiðslur að því er greint er frá í The Detroit News. Gert er ráð fyrir að Samara ábyrgist laun 14.600 starfsmanna.

Rússar með druslustyrki

Auk þessa mun AvtoGAZ frá innspýtingu frá rússneska ríkinu í formi „peninga fyrir druslu” átaks. Þar hefur rússneska stjórnin tilkynnt að bíleigendur sem eiga 10 ára rússneskar druslur eða eldri verði veitt sem svarar 1.750 dollara afsláttur af verði nýrra bíla sem smíðaðir eru í Rússlandi ef þeir skila inn gömlu beyglunum. Nemur þessi afsláttur um 25% af verði nýs bíls, en nærri helmingur rússneska bílaflotans er talinn vera eldri en 10 ár að mati Deusche Bank.

Renault leggur til tækniþekkingu

Franski bílaframleiðandinn Renault sem á 25% hlut í AvtoVAZ mun leggja til tækniþekkingu og tækjabúnað til að uppfæra verksmiðjurnar og er sá stuðningur metinn á 360 milljónir dollara. Þrátt fyrir mun meiri aðstoð frá rússneska ríkinu mun Renault halda sínum 25% hlut í félaginu. Mun Renault m.a. aðstoða við hönnun bíls sem leysa á Lada Classic af hólmi. Þá mun Renault einnig aðstoða við uppsetningu á framleiðslu véla og gírkassa í verksmiðjum í Togliatti.

Vladimir Putin  lagði á það áherslu nýlega að Renault yki hlut sinn í AvtoVAZ. Franski bílaframleiðandinn gaf það hins vegar út að fyrirtækið hefði ekki áhuga á að leggja meira fjármagn í rússneska fyrirtækið. Renault keypti 25% hlutinn á einn milljarð dollara árið 2008 þegar fyrirtækið var í mikilli uppsveiflu. Á þessu ári hefur salan aftur á móti hrunið um 51% og hlutur Renault er nú metinn á minna en 300 milljónir dollara.

Stórauka á framleiðni

Það er nefnt sem dæmi um lélega framleiðni AvtoVAZ að hjá fyrirtækinu vinna 100.000 starfsmenn og afkasta um 400.000 bílum á ári. Hjá Renault starfa hins vegar 80.000 manns og framleiða 1,5 milljónir bíla á ári. Samningur fyrirtækjanna gerir ráð fyrir að afkastageta AvtoVAZ verði komin í 900.000 bíla á árinu 2015. Um 70% framleiðslunnar verður undir merkjum Lada, en restin bílar sem upprunnir eru hjá Renault og Nissan.

Rússar urðu reyndar fyrir áfalli á dögunum þegar General Mortors hætti við að selja Adam Opel GmbH til kanadíska íhlutafyrirtækisins Magna International Inc. og rússnesks banka. Ætluðu þeir að samnýta tækni Opel til að uppfæra GAZ, næst stærsta bílaframleiðanda Rússlands. Þetta áfall mun hafa orðið til þess að stóraukin pressa var sett á að ná samningum um endurskipulagningu AvtoVAZ.