*

miðvikudagur, 20. október 2021
Innlent 18. janúar 2011 10:31

Bílar: Þýður og umhverfisvænn gasbíll

Fyrsti gasknúni Mercedes Benz Sprinter sendibíllinn kom til landsins í nóvember og er hann kominn í þjónustu hjá Vífilfelli.

Hörður Kristjánsson
Gas/bensínknúinn Mercedes Benz Sprinter 316 KA NGT fyrir utan höfuðstöðvar Öskju sem er með umboð fyrir Benz.
Hörður Kristjánsson

Það þarf ekki að fara mörgum orðum um gæði og þægindi Sprinter sendibílanna frá Mercedes Benz. Með gas/bensínvélum tapa þeir heldur engu nema kannski gamla góða malinu í dísilmótornum.

Fyrsti gasknúni Mercedes Benz Sprinter sendibíllinn kom til landsins í nóvember og er hann kominn í þjónustu hjá Vífilfelli. Sala á þessum bílum hófst í Þýskalandi í maí árið 2008. Hann er af gerðinni 316 KA NGT og er bæði knúinn metangasi og bensíni. Eldsneytiskerfi þessa bíls er byggt á áralangri reynslu Benz af smíði gasknúinna ökutækja. Hefur það þó verið þróað enn frekar til að tryggja hnökralausa gangsetningu og akstur. Samkvæmt upplýsingum frá Öskju verður með þessum bíl hægt að spara upp undir hálfa milljón króna á ári í rekstrarkostnaði með gasnotkun miðað við 45.000 km árlegan akstur. Þessi tala kann að hafa hækkað enn meira með hækkandi verði á jarðefnaeldsneyti.

Páll Halldór Halldórsson, sölustjóri atvinnubíla hjá Öskju, segir að enn sem komið er hafi Benz einskorðað breytingar á sínum bílum yfir í gasbíla við bíla með bensínvélum. Ekki hefur verið farið út í að breyta dísilvélum fyrir brennslu á gasi af tæknilegum ástæðum, sem einkum liggja í ólíku brunagildi á dísilolíu og metangasi.

Önnur hugsun í gangsetningu

Fjölmargir gasknúnir Benzbílar hafa verið f luttir til landsins og þá einkum stórir sorpbílar. Þó að þeir hafi reynst vel þá kom í upphafi fram í þeim ákveðinn galli sem laut að gangsetningu bílanna með gasi í frosti. Úr því var þó bætt á einfaldan hátt. Í Sprinternum hefur Benz farið þá leið að þegar kalt er í veðri skiptir bíllinn sjálfvirkt yfir á bensínkerfi og ræsir sig upp á því, enda eru vélarnar upphaf lega bensínmótorar. Vandamál vegna frosinna eldsneytisleiðslna er því ekki til staðar.

Bensínið þarf þó ekki að nota nema þegar nauðsyn er á í starti. Skiptir kerfið algjörlega sjálfvirkt á milli eldsneytistegunda svo ökumaður verður aldrei var við það. Ökumaðurinn getur þó skipt handvirkt á milli kerfanna tveggja með því að þrýsta á hnapp í mælaborði og kviknar þá ljós. Skjár í mælaborðinu sýnir magn metaneldsneytis á metangeyminum. Annað ljós gefur síðan til kynna þegar bæta þarf metaneldsneyti á geyminn. Einfalt og öruggt er að fylla á metangeyma og áfyllingartíminn svipaður og fyrir bensíngeymi.

Stikkorð: Bílar gasbílar