Hagnaður japanska bílaframleiðandans Toyota nam tæpum 283,6 milljörðum jena, jafnvirði um 550 milljarða króna, í fyrra. Þrátt fyrir háa fjárhæð er þetta 30,5% samdráttur á milli ára. Helsta ástæðan fyrir samdrættinum eru flóð og aðrar náttúruhamfarir sem riðu yfir Taíland í fyrra og setti það strik í reikning margra alþjóðlegra fyrirtækja sem eru með starfsemi þar. Hluti af framleiðslu Toyota er í Taílandi.

Stjórnendur Toyota eru bjartsýnir á árið og segja væntingar um að afkoman verði 760 milljarðar jena á þessu rekstrarári. Mikil eftirspurn eftir bílum Toyota á nýmörkuðum keyrir reksturinn áfram, að sögn stjórnenda fyrirtækisins sem gera ráð fyrir að rekstrarhagnaður verði þrefalt meiri á yfirstandandi rekstrarári en því síðasta. Gangi það eftir verður rekstrarhagnaðurinn þúsund milljarðar jena.

Meiri eftirspurn er nú en áður eftir litlum, sparneytnum og umhverfisvænni  bílum fremur en bensínhákum, samkvæmt umfjöllun AFP-fréttastofunnar af málinu.