Sala nýrra fólksbíla tók mikinn kipp í fyrra. Alls voru nýskráðir ríflega 14 þúsund nýir bílar samanborið við um 9.500 árið 2014. Aukningin á milli ára nam því um 47%. Bílgreinasambandið spáir því að á þessu ári verði um 16 þúsund fólksbílar nýskráðir. Ef sú spá gengur eftir þá verða nýskráningarnar á pari við það sem þær voru árið 2007 en þá voru rétt tæplega 16 fólksbílar nýskráðir.

Raunar er ýmislegt sem bendir til þess að þessi spá Bílgreinasambandsins sé frekar hófleg því á fyrstu tveimur mánuðum þessa árs voru nýskráðir tæplega 2.300 bílar, sem er 73% aukning miðað fyrstu tvo mánuði síðasta árs. Ef innflutningur nýrra fólksbíla heldur áfram af sama krafti út árið, sem er reyndar mjög ólíklegt, þá þýðir það að í heildina verða um 24 þúsund bílar nýskráðir á árinu. Það yrði met. Núverandi met var sett árið 2005 þegar um 18 þúsund bílar voru nýskráðir, árið 2006 voru ríflega 17 þúsund bílar nýskráðir og um 16 þúsund árið 2007, eins og áður sagði.

Özur Lárusson, framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins, segir að vissulega sé mjög jákvætt að nýskráningum nýrra bíla sé að fjölga.

„Bílaflotinn eltist ansi hratt í kjölfar hrunsins, þar sem bílasala var nánast enginn stóran hluta af árinu 2008 og árin 2009 og 2010," segir Özur. „Sú aukning sem er að verða í nýskráningum núna er því mjög eðlileg þróun. Þessi þróun helst líka í hendur við vöxt bílaleiga því þær hafa keypt mjög stóran hluta af þeim bílum sem fluttir hafa verið inn. Miðað við að enn er verið að spá mikilli fjölgun ferðamanna þá kæmi mér ekki á óvart ef hlutur þeirra í heildinni myndi enn aukast á þessu ári. Við tókum eftir því í fyrra að einstaklingar og fyrirtæki eru að taka við sér. Þessir aðilar eru að kaupa bíla í meira mæli en áður."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .