Sala nýrra fólksbíla í nóvember dróst saman um 13,2% miðað við nóvember í fyrra, en alls voru skráðir 557 nýir fólksbílar nú en voru 642 í fyrra. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Bílgreinasambandinu.

„Salan hefur verið sveiflukennd í ár þar sem söluaukning hefur verið í 4 mánuðum af 11 en salan hins vegar dregist saman aðra mánuði. Í heildina hefur salan þannig dregist saman um 23,1% á fyrstu 11 mánuðum ársins borið saman við sama tímabil í fyrra, þar sem 8.565 nýir fólksbílar hafa selst í ár en voru 11.141 í fyrra,“ segir í tilkynningu sambandsins.

Sé hins vegar eingöngu horft til seinni hluta ársins (júlí-nóvember) hafi salan aukist um 13,6% miðað við sama tímabil í fyrra. Því sé ljóst að samdráttinn megi rekja til fyrri parts ársins og þá fyrst og fremst til færri seldra bíla til ferðaþjónustunnar sem fjárfesti venjulega í ökutækjum að megninu til á vormánuðum. Selst hafi 57,3% færri nýir bílaleigubílar í ár en í fyrra en við slíku hafi mátt búast í ljósi ástandsins.

56% seldra nýrra fólksbíla nýorkubílar

Til einstaklinga hafi selst 4.721 nýir fólksbílar það sem af er ári og um sé að ræða 3,1% aukningu miðað við sama tíma í fyrra þegar selst höfðu 4.578 bílar til einstaklinga. Þessi hluti markaðarins hafi því verið með ágætum í ár.

Almenn fyrirtæki (önnur en bílaleigur) hafi keypt 1.804 bíla í ár miðað við 1.838 bíla í fyrra, eða einungis 1,8% færri bíla en í fyrra.

„Nýorkubílar (rafmagns, tengiltvinn, hybrid, metan) eru 55,7% allra seldra nýrra fólksbíla á árinu (rafmagn 24,0%, tengiltvinn 18,3%, hybrid 13,0% og metan 0,4%) en þetta hlutfall var 27,5% á sama tíma á síðasta ári. Sé horft eingöngu til einstaklinga þá er þetta hlutfall ennþá hærra, eða 67,6% af öllum fólksbílum sem þeir hafa keypt á árinu,“ segir að lokum í tilkynningu Bílgreinasambandsins.