Sala á nýjum bílum dróst saman um 25,5% á milli ára í september, samkvæmt upplýsingum frá Bílgreinasambandinu. Nýskráðir voru 350 fólksbílar sem er 120 fækkun á milli ára. Það sem af er ári hefur lítillega dregið úr nýskráningum bíla. Á fyrstu níu mánuðum ársins, þ.e. frá áramótum og til loka september, voru 6.218 bílar nýskráðir sem jafngildir 2,4% samdrætti á milli ára.

Fram kemur í tilkynningu frá Bílgreinasambandinu að bílasala hafi verið á hægri uppleið allt árið nema í ágúst og september. Það má að hluta skrifa á óvissuástand í þjóðmálum, að því er haft eftir Özuri Lárussyni, framkvæmdastjóra Bílgreinasambandsins.