Sala á nýjum bílum í janúar jókst um 31% á milli ára en nýskráðir fólksbílar á þessu tímabili voru 1.622 stk. á móti 1.233 stk. í sama mánuði árið 2017 eða aukning um 389 bíla. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá bílgreinasambandinu en þar segir einnig að árið fari vel af stað og sala í janúar gefi ákveðnar vísbendingar um framhaldið.

„Allt bendir til að ferðamenn haldi áfram að sækja landið heim og það kallar á fleiri bílaleigubíla en bílaleigur hafa verið að taka u.þ.b.40% af öllum nýskráðum fólksbílum á síðustu árum,“ segir í tilkynningunni.

Þá hafi einstaklingsmarkaðurinn og fyrirtækjamarkaðurinn tekið við sér en þeir markaðir fóru á síðasta ári af stað að einhverju marki. Í janúar hafi 72,5% af nýskráningum komið til vegna einstaklinga og fyrirtækja. Mest var skráð af Mitsubishi Outlander. Í öðru sæti var Toyota Land Cruiser og í því þriðja Toyota Rav4 en sem fyrr eru hvítir bílar vinsælastir.