Fyrri helming ágúst seldust aðeins 67 nýir fólksbílar sé miðað við nýskráningar. Þar að auki voru 7 notaðir bílar nýskráðir. Samtals eru þetta 74 bílar, sem samsvarar um 150 bílum á mánaðargrundvelli. Til samanburðar seldust 422 fólksbílar í júlí og á fyrstu sjö mánuðum ársins seldust að meðaltali um 270 fólksbílar, þegar miðað er við tölur um nýskráningar frá Umferðastofu.

Stefnir í að samdráttur aukist á ný

Bílasala hafði heldur verið að taka við sér í júní og júlí eftir afar rólega mánuði frá síðasta hausti. Salan í júní og júlí var þó langt undir því sem menn eiga að venjast í meðalári og skýrðist þar að auki að verulegu leyti af miklum útsölum sem fyrirsjáanlegt var að gætu ekki haldið áfram nema takmarkaðan tíma. Samdrátturinn á milli ára í júlí var kominn niður í 38%, sem er mikil breyting frá því fyrr á árinu þegar hann var um og yfir 90%. Í þessu sambandi ber þó að hafa í huga að samdrátturinn hófst fyrir alvöru í júlí í fyrra, þannig að ársbreytingar virka nú minni þegar reiknað er út frá lægra gildi í fyrra. Ef bílasala tekur ekki verulegan kipp seinni hluta þessa mánaðar eykst samdrátturinn á milli ára aftur eftir að hafa minnkað hratt fjóra mánuði í röð.

Sex nýir Mercedes Benz bílar á götuna frá mánaðamótum

Þrjár fólksbíltegundir seldust mest og jafnt í fyrri hluta ágúst. Þetta voru Hyundai, Subaru og Toyota með 11 fólksbíla hver. Þá kom Nissan með 7 bíla en næstir komu Suzuki og Mercedes Benz með 6 bíla hvor tegund.