Bílasala í Frakklandi dróst saman um 19% á milli mánaða í nýliðnum mánuði. Franskir bílaframleiðendur hafa ekki séð það svartara í 15 ár eða frá árinu 1997 þar sem sala á frönskum bílum dróst saman um heil 28% á milli ára í mánuðinum. Þetta ku vera einkennandi fyrir niðursveifluna í frönsku efnahagslífi enda óttast fjármálasérfræðingar að ekki sé loku fyrir það skotið að landið verði kreppunni að bráð.

Fjallað er um málið á vef breska dagblaðsins Telegraph í dag. Þar er bent á að vísitala innkaupastjóra (PMI-vísitalan) í Frakklandi standi í 44,5 stigum. Hún er hvernig lægri nema á Grikklandi.

Sölusamdrátturinn á frönskum bílum var mismikill eftir tegundum. Sala á bílum undir merkjum Renault dróst saman um 33%, Citroen um 26% en erlendar tegundir um 7,9%.

Blaðið hefur eftir viðmælanda hjá samtökum franskra bílaframleiðenda að líkleg skýring á samdrættinum sé sú að fólk í millistétt kaupi sér yfirleitt bíl frá 10-20.000 evrum. Þetta sé einmitt sú stétt sem hafi komið illa undan fjárkreppunni og haldi það að sér höndum.