Sala á nýjum fólksbílum frá 1. til 30. júlí jókst um 57% en nýskráðir voru 1.168 fólksbílar á tímabilinu samanborið við 743 á sama tíma í fyrra.

Söluhæstu bílarnir voru Toyota (194), Volkswagen (115) og Nissan (98).

Mikil söluaukning í ár

Söluaukningin fyrstu sjö mánuði ársins nemur 39,8%. Það sem af er ári hafa selst 9.952 fólksbílar en 7.118 bílar seldust á sama tímabili í fyrra.

Fyrstu sex mánuði ársins voru bílaleigubílar rúmlega 61% af sölunni. Ekki liggur fyrir hlutdeild bílaleigubíla fyrir júlí.

Mest aukning á Íslandi á fyrri helmingnum

Bílasala í Evrópu jókst um 8,2% að meðaltali fyrstu sex mánuði ársins en 15,6% í júní. Bílasala jókst mest á Íslandi af öllum Evrópulöndunum á fyrri helmingi ársins, eða um 38%. Næst á eftir Íslandi kom Portúgal með 32,2% og Spánn með 22%.