Bílasala dróst saman um 8% á síðasta ári samanborið við árið á undan. Hagfræðideild Landsbankans bendir á að þessi sala hafi verið úr takti við væntingar margra umboða.

„Sala nýrra bifreiða hér á landi hefur oft reynst ágætis mælikvarði á hitann í íslenska hagkerfinu. Mikil bílasala hefur þannig oft farið saman við mikla þenslu. Bílasala var töluvert mikil fyrir hrun þegar gengi krónunnar var hvað sterkast. Það er að hluta til eðlilegt að heimilin hafi sætt færis meðan bílar voru hlutfallslega ódýrir og fjárfest í nýjum bíl,“ segir í Hagsjá Landsbankans.

Bílgreinasambandið gerir ráð fyrir að sala á nýjum bílum verði 8.500 á þessu ári sem yrði 17% vöxtur miðað við söluna árið 2013. Til samanburðar nam meðalinnflutningur á bílum á árunum 2004 til 2007 um 18.850 bílum hvert ár. Spáin gerir því ráð fyrir að salan verði um 45% af því sem hún var á tímabilinu frá 2004 til 2007.