Sala á bílum í Bandaríkjunum dróst allverulega saman í septembermánuði.

Helstu bílaframleiðendur vestan hafs sjá nú síminnkandi sölu. Af bandarískum framleiðendum kom Ford verst út í september en sala á bílum þessa annars stærsta framleiðanda Bandaríkjanna féll um 34% á tímabilinu.

Sala á bílum féll heldur meira en búist var við en í heild minnkaði bílasala um 26%.

Minnkandi sala á bílum er rakin til lausafjárkreppunnar sem tröllríður nú efnahagskerfi Bandaríkjanna. Töluverð óvissa virðist ríkja um það hve lengi ástandið muni vara en bandarískur bílaiðnaður er sá stærsti í heiminum.

Reuters segir frá því að sala á bílum, í Bandaríkjunum, hafi minnkað um 24% hjá Honda, 32% hjá Toyota, 37% hjá Nissan og hjá Chrysler féll salan um 33%.