Nýskráningar bíla hafa dregist mikið saman í Evrópu upp á síðkastið eða um 5,9% að meðaltali á milli ára í maí. Bílasalar þar hafa ekki séð það svartara í 20 ár eða síðan í maí árið 1993. Samdrátturinn var mestur í Rúmeníu og á Kýpur en þar dróst bílasala saman um næstum því 50%. Á Kýpur seldust aðeins 632 nýir bílar, samkvæmt upplýsingum Samtaka bílaframleiðenda í Evrópu . Þá dróst sala á bílum saman um 10,4% í Frakklandi, 9,9% í Þýskalandi og 8% á Ítalíu. Á móti jókst bílasala um 11% í Bretlandi og hífði það meðaltalið upp. Þetta var eina landið Evrópu þar sem bílasala jókst.

Af einstökum bílaframleiðendum var staðan slæm hjá Peugot en en sala á bílum fyrirtækisins var 13,2% minni í maí en fyrir ári. Þá var sala á bílum frá GM 11,3% minni í maí en fyrir ári.