Maður á rétt á bótum úr starfsábyrgðartryggingu bifreiðasala eftir að sá síðarnefndi seldi bíl mannsins en greiddi honum ekki söluandvirði bíls hans. Þetta er niðurstaða úrskurðarnefndar í vátryggingamálum.

Umrædd bifreið var seld sumarið 2019 og millifærð inn á reikning bílasölunnar. Kaupverðinu var hins vegar aldrei skilað til seljandans. Innheimtubréfi var ekki svarað og frá atvikum málsins hefur rekstur bifreiðasölunnar verið seldur og engin starfsemi er eftir í upphaflegu félagi. Því voru þar engir fjármunir til að greiða kröfuna.

Í skilmálum starfsábyrgðartryggingarinnar sagði að hún bæti tjón vegna skaðabótaskyldu. Vátryggingafélagið byggði hins vegar á því að tjóninu hefði verið valdið af ásetningi bifreiðasalans og um fjárdrátt hefði verið að ræða. Samkvæmt undanþáguákvæðum tryggingarinnar bætti það ekki tjón sem verður rakið til ásetnings vátryggingatakans.

Í niðurstöðu nefndarinnar sagði að til að unnt væri að bera undanþáguákvæðið fyrir sig yrði félagið að færa sönnur á að um ásetning hefði verið að ræða. Samkvæmt gögnum málsins var ekki unnt að slá því föstu að svo hefði ferið þar sem engar skjallegar lýsingar lágu fyrir. Mögulega hefði verið um gáleysi að ræða og þann vafa yrði vátryggingafélagið að þola. Því á maðurinn rétt á bótum úr starfsábyrgðartryggingunni.