Árni Páll Árnason telur náttúrupassa Ragnheiðar Elínar Árnadóttur, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, vera slæma hugmynd sem hann sé andsnúinn. Hann telur jafnframt að andstaða við málið sé svo mikil að augljóst sé að það muni ekki verða að veruleika. „Allavega er það þannig að hér eru ekki ljósmæður hlaupandi unnvörpum til að grípa krógann og reyna að blása í hann lífi. Maður tekur eftir því af hálfu stjórnarliða að það ber frekar á að menn telji þetta ekki lífvænlegt verkefni,“ sagði Árni Páll á Alþingi í dag.

Þjóðin hreki burt „óyndisríkisstjórn“

Árni Páll benti jafnframt á að innheimta gjalds fyrir náttúrupassa væri almenn skattheimta og því „undir hælinn lagt með hvaða hætti og í hvaða mæli skili sér til uppbyggingar [á ferðamannastöðum, innsk. blm].“

Hann talaði einnig um að yrði frumvarpið að lögum myndi það fyrst tryggja fjármögnun til ferðamannastaða sumarið 2017. „Þá blessunarlega stefnir nú allt í að þjóðin verði búin að hrekja þessa óyndisríkisstjórn af höndum sér, sumarið 2017. Þannig að alls óvíst er nú að þetta kerfi fái nokkru sinni að verða að veruleika, fullfjármagnað með þriggja ára fjármögnun,“ segir hann.

Betra að innheimta gjald á vinsæla staði

Árni Páll taldi náttúrupassann þó ekki alslæman, enda væri það kostur hversu mikla fjármuni væri talið að innheimtast myndu með náttúrupassa, allt að 3 milljarða á ári miðað við greiningu fjárlagaskrifstofu.

Engu að síður myndi náttúrupassi ekki endilega verða til þess að varna átroðningi á fjölsóttustu ferðamannastaði og til þess væru bílastæðagjöld betri. „Hinn afmarkaði vandi sem við er að glíma er að sumar náttúruperlur þola ekki átroðning og það skiptir máli að byggja upp þar. Það er eðlilegt að taka einhverskonar gjöld til þess að tryggja þá varðveislu. Þau geta verið að hluta til með gistináttagjaldi. Það er hægt að útfæra komugjöld líka. Það er líka hægt að útfæra á fjölsóttustu stöðunum bílastæðagjald, þar sem fólk ósköp einfaldlega með sama hætti og er búið að ræða í dag, stingur krítarkorti í vél þegar að komið er að bílastæði og slá opnast,“ segir hann.“

Náttúrupassi búi til „landgreifastétt“

„Það er þekkt leið, víða um lönd og tryggir auðvitað að þeir sem koma og njóta viðkomandi staðar leggja eitthvað af mörkum fyrir aðstöðuna sem þar er komið upp, í formi bílastæða, salernisaðstöðu og svo framvegis. Sambland af þessum leiðum er í mínum huga skynsamlegasta leiðin fyrir okkur til að feta okkur áfram. En þessi náttúrupassaleið hefur þann augljósa ókost að búa til nýja landgreifastétt og gera almenna væntingu um það að landið sé lokað en ekki opið. Það er stóri ókosturinn,“ segir Árni Páll Árnason.