Undanfarna tvo áratugi hefur FS verið iðið við uppbyggingu stúdentagarða. Sú uppbygging hefur þó ekki alltaf mætt fullum skilningi skipulagsyfirvalda – sérstaklega þegar bílastæði eru annars vegar. Guðrún Björnsdóttir, framkvæmdastjóri FS, var viðmælandi Viðskiptablaðsins í síðustu viku.

„Það samræmist alls ekki okkar hugmyndafræði að hafa eitt bílastæði fyrir hverja íbúð. Undanfarin ár hefur orðið mikill viðsnúningur á afstöðu borgaryfirvalda gagnvart einmitt bílastæðum. Við höfum mjög lengi talað fyrir því að draga úr kröfum á bílastæði við stúdentagarða, einfaldlega vegna þess að þetta reikningsdæmi gengur ekki upp. Það að leggja kostnað við bílastæði ofan á leigu sem stúdentar ráða við hleypir leigunni svo mikið upp, sérstaklega þegar talað er um að setja þau neðanjarðar. Við höfum til dæmis sagt nei við verkefnum þar sem það er skilyrði. Það gengur ekki upp því það hleypir verðinu upp um 25% og gengur ekki upp.“

Þannig hafi skipulagsyfirvöld gert undantekningu við byggingu garðanna við Lindargötu, þar sem 0,33 stæði eru við hvert hús og aðeins 0,2 við Sæmundargötu. „Undanfarin ár hefur verið mikill skilningur á þessu og ég er þeirrar skoðunar að það er illa farið með land að blanda svona mörgum bílastæðum við stúdentagarða, sérstaklega þar sem almenningssamgöngur eru góðar eða þar sem fólk getur gengið eða hjólað í skólann. Það er okkar radíus og við viljum byggja innan þess radíuss. Þá kemurðu til móts við þennan hóp, sem vill gjarnan geta sleppt því að vera á bíl.“ Hugsunin þarf þá að vera þannig að viðkomandi hafi allt til alls innan þessa radíuss. „Við þurfum að hugsa þetta út frá þeim enda.“

Gagnrýnin á þetta er að það er ekki lágvöruverðsverslun innan háskólasvæðisins. Er það eitthvað sem þið eruð að reyna að bæta?

„Við erum með nýja stúdentagarða í Brautarholtinu. Þar opnaði Bónus í Skipholtinu og það var frábært og skipti gríðarmiklu máli fyrir okkur. Verslunin kemur þegar við erum einmitt á byggingarstigi. Þetta voru bestu fréttir sem íbúarnir sem voru að flytja í húsið gátu fengið. Það er því miður engin lágvöruverðsverslun á háskólasvæðinu. Þegar við byggðum við Eggertsgötu tókum við fjórar íbúðir út úr einu húsinu og reyndum að finna einhverja lágvöruverðsverslun til að koma þar inn. Þá var enginn tilbúinn til þess. Þetta var of lítil eining og ekki í módelinu. Við fengum þó 10-11, sem var eitthvað fyrir fólk til að redda sér á. Fyrir nokkrum árum var krafan hins vegar orðin svo hávær um að koma inn með ódýrari vörur. Þá breyttu þeir konseptinu og komu með Háskólabúðina, sem þeir settu jafnframt upp í HR. En ég geri mér alveg grein fyrir því að það er ekki sambærilegt við lágvöruverðsverslun,“ segir Guðrún.

„Ég viðurkenni fúslega að púðrið hefur verið sett í að finna lóðir fyrir stúdentagarða frekar en þetta því flöskuhálsinn við uppbyggingu stúdentagarða eru lóðirnar.“