Í vikunni samþykkti Reykjavíkurborg að fara í samstarf við Faxaflóahafnir um að bílastæðin á Miðbakka við höfnina yrðu fjarlægð og rýminu breytt í almannarými eins og það er kallað að því er Fréttablaðið greinir frá.

Kristín Soffía Jónsdóttir borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, sem situr í meirihluta í borgarstjórn, og er jafnframt stjórnarformaður Faxaflóahafna sér fyrir sér að Miðbakkinn verði torg í biðstöðu næstu árin.

„[V]við leggjum áherslu á að þarna verði eitthvað fyrir fjölskyldur, eitthvað ókeypis.[...] Núna fer af stað dans milli hafnar, borgar og borgarbúa. Þetta er stórt svæði og við þurfum að sjá hvað virkar,“ segir Kristín Soffía.

„Við erum með beiðni um samstarf frá Boxinu-matarmarkaði. Það eru hugmyndir uppi um brettagarð, boltavöll, mögulegt samstarf við Listasafn Reykjavíkur. Í núverandi skipulagi er gert ráð fyrir móttökuhúsi fyrir skemmtiferðaskipin, það gæti verið fjölnota hús.“

Afnám bílastæðanna hefur ekki áhrif á kaup fasteignarisans Berjaya Land Berhad frá Malasíu á Geirsgötu 11, húsnæði sem áður var í eigu Brim, nú Útgerðarfélags Reykjavíkur.

„Það er til skipulagslýsing fyrir svæðið frá 2017 sem gerir ráð fyrir mjög takmarkaðri uppbyggingu. Við höfum fengið nokkrar fyrirspurnir um þá fasteign, í grunninn er það eina sem má gera að endurbyggja hús með flötu þaki.“