Borgarstjórn Reykjavíkur hefur ákveðið að leggja af öll skábílastæði við Laugaveg, og þar með fækka bílastæðum við götuna um allt að 11 að því er Morgunblaðið greinir frá.

Um er að ræða bílastæði sem liggja skáhallt frá götunni á milli Barónsstígs og Frakkastígs, en samkvæmt tillögu sem samþykkt var í borgarráði verður þeim breytt í samhliða bílastæði líkt og gert hefur verið fyrir tvö stæði fatlaðra við Laugaveg 77.

Þar með fækkar bílastæðunum um allt að 11 en gert er ráð fyrir að í stað þeirra 29 bílastæða sem eru í dag skáhalt út frá götunni komi frá 18 upp í 22 bílastæði sem liggja samhliða henni.

Borgarstjórnarmeirihlutinn í Reykjavík er myndaður af Samfylkingu, Pírötum, VG og Bjartri framtíð undir forystu Dags B. Eggertssonar. Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um eru fleiri óánægðir en ánægðir með störf borgarstjórans og samkvæmt nýjustu skoðanakönnun er borgarstjórnarmeirihlutinn fallinn .

Ákvörðun borgarráðs var tekin í kjölfar greinargerðar Ólafs Ingibergssonar sérfræðings hjá umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkur, en samkvæmt henni þrengja skástæðin að umferð gangandi og hjólandi um gangstéttar meðfram Laugaveginum.