Aukin bílasala endurspeglast í afkomu flestra bílaumboða á árinu 2014. Sala á fólksbílum jókst um 32% frá 2013 en var þó aðeins um 9.500 bílar. Til samanburðar seldust 17 þúsund bílar að meðaltali  á árunum 2005-2007.

BL er stærsta bílaumboðið þegar litið er til veltu, með um 27% markaðshlutdeild. Fyrirtækið er umboðsaðili átta bíltegunda en þeirra á meðal eru BMW og Land Rover. Fjöldi umboða og velta helst í hendur. Næst á eftir er Brimborg með fjögur merki, Hekla í þriðja með fjögur og Askja í því fjórða með tvö.

Um 12.400 bílar hafa selst fyrstu 10 mánuði ársins sem er 42,1% aukning milli ára. Þetta mun bæta afkomu umboðanna mikið árið 2015, í samanburði við 2014. Þótt umboðin séu ekki öll komin á fleygiferð á ný eftir skakkaföllin 2008 er óhætt að segja að þau  séu að minnsta kosti komin í þriðja gír og stutt í þann fjórða, og sá fimmti er líklegur jafnvel á næsta ári.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér .