Bílaumboðin Askja og Kia á Íslandi munu á næstu vikum flytja starfsemi sína að Krókhálsi 11 í nýtt og rúmgott húsnæði þar sem Ræsir hefur verið til húsa. Gengið var frá samningum þess efnis síðdegis í gær.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá félögunum.

Bílaumboðið Askja sem tók við umboði Mercedes-Benz á Íslandi árið 2005 hefur verið með  starfsemi sína á Laugavegi og i Skútahrauni í Hafnarfirði.

Kia á Íslandi, sem undanfarin ár hefur verið með sölu- og þjónustustarfsemi sína á Laugavegi, mun flytja með Öskju að Krókhálsi.

Bílaumboðið Askja er systurfélag Heklu hf. en Kia á Íslandi er dótturfélag Heklu. Félögin þrjú munu áfram nýta sameiginlega bakvinnslu félaganna.

Framkvæmdastjóri Öskju er Leifur Örn Leifsson, en stjórnarformaður er Knútur G. Hauksson, forstjóri Heklu hf.

“Við sáum þarna tækifæri til að sameina starfsemi Öskju á einum stað. Starfsemin hefur vaxið mjög hratt undanfarin ár og við þessa breytingu mun starfsmönnum fjölga nokkuð,“ segir Leifur Örn Leifsson.

{Við höfum gert langtímaleigusamning um húsnæðið að Krókhálsi þannig að hingað erum við komnir til að vera og veita eigendum Mercedes-Benz og Kia frábæra þjónustu í mun rýmra húsnæði.”