Enn er lokað fyrir gasframleiðslu á Kristin olíusvæði Norðmanna í Norðursjó vegna vandræða með sleppibúnað björgunarbáta.

Talsvert er í húfi fyrir StatoilHydro því skrúfað er fyrir framleiðslu á 10 milljónum rúmmetra af gasi á dag auk framleiðslu á kolefnaríku gasi.

StatoilHydro lokaði fyrir uppdælingu á gasi þann 8. janúar. Ástæðan var að í ljós kom við skoðun að sleppibúnaður björgunarbáta á borpallinum Velefrikk B var í ólagi. Samskonar bátar eru á Kristin borpallinum. Ekki þurfti þó að loka Velefrikk B pallinum þar sem hann er beintengdur með brú við Velefrikk A pallinn sem er með sína björgunarbáta í lagi.

Geir Gjervan, talsmaður StatoilHydro sagði í samtali við vefsíðu upstreamonline.com að enn ætti eftir að gera einhverjar prufur með sleppibúnaðinn. Hann vildi þó ekkert segja um hvenær hægt væri að keyra upp vinnsluna á borpallinum að nýju.