Meirihluti efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis fellst á að heimilt verði að endurgreiða vörugjald og virðisaukaskatt af bílum sem eru afskráðir og fluttir úr landi.

Fjármálaráðherra lagði nýverið fram frumvarp þessa efnis fram á Alþingi. Meirihluti nefndarinnar er fylgjandi frumvarpinu en leggur þó til þær breytingar að heimild til endurgreiðslu verði lengd til  31. desember 2009. Í frumvarpinu er miðað við 1. apríl 2009.

Of stuttur tími kynni að valda óðagoti

Efnahags- og viðskiptanefnd hefur haft frumvarpið til umfjöllunar að undanförnu en í kvöld afgreiddi hún það úr nefnd.

„Þeir sem komu á fund nefndarinnar voru almennt sammála tilgangi frumvarpsins," segir í áliti meirihluta nefndarinnar.

„Fram kom sú gagnrýni að gildistími þess væri allt of stuttur og kynni að valda óðagoti við útflutning auk þess sem sumir töldu að reglur frumvarpsins væru eðlilegar og ættu að gilda til frambúðar."

Meirihlutinn áréttar í álitinu að frumvarpið sé lagt fram vegna sérstakra aðstæðna í efnahagsmálum þjóðarinnar. „Ætlunin er að auka möguleika eigenda bifreiða á að koma þeim í verð með tilheyrandi öflun gjaldeyristekna sem ætla má að verði varið til niðurgreiðslu skulda, enda tóku margir gengislán til bílakaupa. Hefur einnig verið vísað til þess að frumvarpið liðki fyrir endurnýjun íslenska bílaflotans og sé þar af leiðandi til hagsbóta fyrir umhverfið."