Bíleigendur hafa greitt 1,6 milljarða króna í vanrækslugjald í ríkiskassann frá því að gjaldið var tekið upp árið 2009. Þetta gerir um 400 milljónir á ári sem eigendur bíla greiða vegna trassaskapar. Vanrækslugjald leggst á þá bíleigendur sem ekki höfðu fært ökutæki sín til lögbundinnar skoðunar.

Flest sektarboð í fyrra voru vegna vanrækslu á skoðunarskyldu eða 83% en afgangurinn vegna endurskoðunar. Gjaldið er 15 þúsund krónur en 50% afsláttur er veittur af því ef greitt er innan ákveðinna tímamarka.

Fram kemur í Árbók bílgreina 2014 sem Bílgreinasambandið gefur út, að síðasta ár var meðalár í álagningu vanrækslugjalda en þau lögðust á 36.872 bifreiðar í fyrra.