Á aðalfundi Bílgreinasambandsins í gær var samþykkt  að ganga til liðs við Samtök iðnaðarins. Bílgreinasambandið var stofnað árið 1970 en félagsmenn þess eru yfir 130 fyrirtæki sem starfa í bílgreininni.

Jón Trausti Ólafsson var endurkjörinn formaður félagsins á aðalfundinum sem var haldinn á Grand Hótel Reykjavík, til næstu 2ja ára en Jón Trausti hefur verið formaður frá árinu 2013.

Bílgreinasambandið verður sjálfstæð eining innan Samtaka iðnaðarins með eigin stjórn, framkvæmdastjóra og fjárhag að því er fram kemur í fréttatilkynningu.

Özur Lárusson , framkvæmdastjóri Bílgreinasamandsins segir félagið stefna á að efla starf sitt.

„Menntamálin brenna á okkur og við viljum auka nýliðun í greininni, enda er bílgreinin mjög spennandi kostur fyrir ungt fólk að starfa í þar sem endurmenntun er mikil og laun eru góð,“ segir Özur.

„Við teljum að á þessum tímapunkti sé rétt fyrir okkur að hefja samstarf við Samtök iðnaðarins og sjáum margvíslegan styrk falin í þeim samtökum sem við teljum að geti lagt okkur lið."

Almar Guðmundsson , framkvæmdastjóri SI segir Bílgreinasambandið öflug samtök.

„Við sjáum fyrir okkur að þau verði fjórða stoðin innan Samtaka iðnaðarins, en hinar þrjár stoðirnar eru framleiðslu-, mannvirkja-, og hugverkasvið,“ segir Almar.

„Það eru margvísleg samlegðaráhrif af komu Bílgreinasambandsins og við lítum svo á að koma Bílgreinasambandsins inn í Samtök iðnaðarins styrki starf okkar enn frekar."