*

föstudagur, 19. júlí 2019
Innlent 1. desember 2017 07:49

Bílgreinasambandið sameinast ekki SI

Samtök iðnaðarins og Bílgreinasambandið slíta viðræðum um sameiningu vegna ekki nægilega mikilla samlegðaráhrifa.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Bílgreinasambandið (BGS) mun ekki ganga til liðs við Samtök iðnaðarins (SI) eins og stefnt var að, en fyrr á þessu ári hófust samningaviðræður milli aðila sem ekki gengu eftir.

Þau samlegðaráhrif sem horft var til með innkomu Bílgreinasambandsins í Samtök iðnaðarins reyndust ekki vera eins mikil og gert var ráð fyrir í upphafi viðræðnanna. Því hefur það orðið að samkomulagi beggja aðila að slíta viðræðunum. 

Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður SI segir það miður að ekki hafi náðst samkomulag eins og til stóð. 

„Það var mikill vilji til þess að láta á það reyna en þegar til kom reyndist vera of langt á milli í hugmyndum um samlegðaráhrifin sem voru forsenda viðræðnanna,“ segir Guðrún.„Við eigum það sameiginlegt að vilja öflugan iðnað í landinu og vonumst eftir að eiga áfram gott samtal við stjórnendur BGS.“

Jón Trausti Ólafsson, formaður BGS segir félagið áfram vilja góð samskipti við stjórnendur SI. „Stjórn BGS hefur metið það svo að hagsmunum félagsmanna sé að svo stöddu betur borgið utan raða SI heldur en innan samtakanna,“ segir Jón Trausti. 

„Við viljum áframhaldandi jákvæða og góða samvinnu við SI með það að markmiði að efla iðnað og standa vörð um góða menntun og fagleg vinnubrögð.“