Á síðustu árum hefur verið töluvert meira um óvænt úrslit í alþjóðahandbolta en áður. Að sögn Guðmundar Guðmundssonar, landsliðsþjálfara Íslands í handbolta, hefur bilið á milli þjóða minnkað.

„Það hafa verið að koma mjög athyglisverð úrslit sem urðu bæði í júní og október þegar Belgía gerir jafntefli við Serba á útivelli. Flestir sem fylgst hafa með handbolta vita að Belgar hafa aldrei verið hátt skrifaðir á meðan Serbar hafa verið með bestu þjóðum heims. Þá unnu Svisslendingar líka Serbíu og rétt töpuðu fyrir Króatíu á útivelli og Makedónía tapaði fyrir Grikkjum. Þetta segir manni það að maður gengur ekki lengur að neinu vísu í þessu.“

Hann segir þessa breytingu hafa átt sér stað á síðustu þremur árum. „Menn eru orðnir betur þjálfaðir og það er meiri þekking almennt séð til staðar. Allir leikir eru því orðnir erfiðari og þú getur ekki farið í einn einasta leik og ætlast til þess að vinna. Leikurinn við Barein verður mjög erfiður, ég get alveg lofað því og það sama á við um Japan.“

Nánar er rætt við Guðmund í Áramótum , sérriti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .