Bill Gates, forstjóri og stofnandi Microsoft sagði á fundi í dag að nýrri útgáfu af Windows, Windows 7 yrði hleypti í loftið „líklega innan árs eða svo.“

Talsmaður Microsoft sagði þó að líklega væru þó 2 ár í að nýtt stýrikerfi verði kynnt og því yrði hleypt úr hlaði árið 2010. Windows Vista var kynnt í janúar 2007. Talsmaðurinn bætti því við að Gates hefði verið að tala um tilraunarútgáfur en ekki loka útgáfu Windows 7.

Á fréttavef BBC kemur fram að sérfræðingar innan hugbúnaðargeirans gefa lítið fyrir yfirlýsingar Bill Gates þar sem félagið hafi oft verið of bjartsýnt varðandi tímasetningar á nýjum forritum og stýrikerfum.

„Ég er mjög spenntur fyrir nýrri útgáfu og þeim möguleikum sem hún býður upp á,“ sagði Gates. Hann vildi þó ekkert um það segja hvaða breytingar yrðu gerðar á stýrikerfinu í hinni nýju útgáfu.

BBC greinir frá því að nokkrir af stærstu viðskiptavinum Microsoft hafi fengið tilraunarútgáfu af Windows 7 og búast megi við athugasemdum fljótlega.